Námskrá Aðalþings

Bakgrunnur

Í skólanámskrá Aðalþings, er gerð grein fyrir áherslum í starfi og hugmyndafræði. Í Aðalþingi er áherslan á fljótandi námskrá sem er sífellt í mótun þessvegna fellur námsskrá og starfsáætlun saman.  Starfið í Aðalþingi byggir á Aðalnámskrá leikskóla og hugmyndafræði sem kennd er við Loris Malaguzzi frá bænum Reggio Emilia á Ítalíu. Aðalþing tilheyrir samfélagi leikskóla á Íslandi sem á í hugmyndafræðilegri samræðu við skólastarf í anda Reggio Emilia. Sérstök aðferð á kerfisbundnu mati á leikskólastarfinu í Aðalþingi hófst í janúar 2016. Kerfisbundið innra mat á leikskólastarfi í Aðalþingi 

Leiðarljós í leikskólastarfinu verða eftirfarandi þættir sem taldir eru vera hvað mikilvægastir í leikskólanámi, en þeir felast í að:

  • Hvetja börnin.
  • Mikilvægara sé að kenna börnum að spyrja spurninga en að fræða þau með svörum.
  • Hjálpa barninu að finna hvað veki áhuga hjá því, hvað því finnst skemmtilegt, þetta á að vera á forsendum barnsins ekki neinna annarra.
  • Kenna barninu að takast á við hið óþekkta.
  • Kenna barninu að taka ábyrgð á sjálfu sér.
  • Kenna barninu að mikilvægasta umbunin er oft sú sem er í einu og öllu - í verkinu sjálfu.
  • Kenna barninu að setja sig í spor annarra.

Starfsáætlun leikskólans Aðalþings er ætlað að spegla þau gildi og viðmið sem starfið byggist á. Áætlunin á bæði að spegla þá hugmyndafræði sem liggur að baki starfinu í Aðalþingi og Aðalnámskrá leikskóla. Í henni á framtíðarsýn skólans að koma skýrt fram. Aðalþing er skipulagsheild sem byggir starf sitt á þekkingu, vexti hennar, viðhaldi og þróun. Við stofnun Aðalþings var unnin námskrá fyrir skólastarf sem lögð var fram þegar skólinn var boðinn út til reksturs árið 2008 og á þeim grunni byggir leikskólastarf Aðalþings ennþá. Hinsvegar má segja að námskráin 2009-2010 hafi verið efnismeiri og endurskipulögð enda var þá komin meiri reynsla á skólastarfið. Námskrá fyrir skólaárið 2015 – 2016 byggir á fyrri grunni námskrár sem foreldraráð og foreldrar tóku þátt í að vinna. En þá funduðu stjórnendur Aðalþings með foreldraráði um námskrána og haldin voru foreldraþing þar sem farið var í efni Aðalnámskrár leikskóla lið fyrir lið og útfærslu hennar í Aðalþingi og síðast en ekki síst ræddu foreldrar í minni hópum um efnið og lögðu fram tillögur um betrumbætur. Kennarar Aðalþings unnu síðan með niðurstöður foreldraþinganna.

Einnig var send út spurningakönnun þar sem foreldrum Aðalþings gafst kostur á að kjósa milli tveggja tillagna á skóladagatali leikskólans fyrir skólaárið 2012 – 2013. Mjög góð þátttaka var í könnuninni, ríflega 80% fjölskyldna svöruðu og 97% þeirra kusu að hafa skipulagsdaga þrjá fyrstu virku dagana í janúar 2013 þegar grunnskólar eru einnig að mestu lokaðir. Á vorönn 2013 var gerð þjónustukönnun meðal foreldra í Aðalþingi þar sem meðal annars var spurt hvernig þátttakendum líkaði hið nýja fyrirkomulag. Mjög góð þátttaka var í könnuninni og svöruðu nær allir að þeim líkaði vel eða mjög vel við fyrirkomulagið. Síðastliðið vor var þjónustukönnun endurtekin að hluta og voru foreldrar aftur spurðir um viðhorf þeirra á fyrirkomulagi skipulagsdaganna. Mjög góð þátttaka var í könnuninni og 95% líkar vel eða mjög vel við fyrirkomulagið, langflestum mjög vel. Til margra ára hafa tillögur að skóladagatali Aðalþings byggst á fyrgreindri samvinnu við foreldra skólans, en á fundi leikskólanefndar Kópavogs þann 28.5.2015 hafnaði nefndin því samstarfi: “Leikskólanefnd hafnar beiðni leikskólans um breytingu á skipulagsdögum, sbr. fyrri samþykktir nefndar um samræmda skipulagsdaga í sveitarfélaginu.” (Leikskólanefnd Kópavogs. 2015). Skipulagsdagar í Aðalþingi fyrir veturinn 2015-2016 verða því; 20. nóvember, 4. janúar, 8. mars, 20. og 22. apríl, þrátt fyrir að flestir þeirra daga henti foreldrum og skipulagi skólastarfsins illa. Sjá skóladagatal Aðalþings 2015 – 2016 í fylgiskjali nr. 1.

Í leikskólastarfi er ljóst að ein stærð eða ein lausn er hvorki möguleg né æskileg fyrir alla. Ætlast er til að allir njóti sömu virðingar og í grundvallargildum starfsins sé gert ráð fyrir öllum. Þau gildi sem öðru fremur er lögð áhersla á í Aðalþingi eru mannhelgi, virðing, hlustun, framsækni, umönnun og áskorun. Til þess að gildin séu ljós í skólastarfinu eru sett fram stefnumið sem eiga að endurspegla gildin og leiðir að þeim. Í samræmi við hugmyndafræði Malaguzzi frá Reggio Emilia sem skólinn styðst við, eru þing/deildir aldursskiptar, þannig að námsumhverfi henti hverjum árgangi sem best. Aðalþing vinnur sem eitt þekkingarsamfélag, hópurinn vinnur saman að sameiginlegum markmiðum sem ein heild.

Leikskólinn Aðalþing á að vera staður þar sem fjölbreytt námstækifæri eru sköpuð og gerð börnunum aðgengileg; efniviður, rými, hugmyndir og lausnamiðanir. Námstækifærin eiga að skapa möguleika fyrir börnin til að æfa sig í lýðræði og frelsi með námi, hlustun, samræðum og gagnrýninni hugsun.  Kennarar skólans eiga að tilheyra námshóp fullorðinna og barna, en frekar sem hlustendur en fræðarar. Þeir eiga meðal annars að líta á börn frekar sem gerendur en neytendur, þannig að börnin skapi sér og öðrum börnum námstækifæri. Bera á virðingu fyrir börnunum, hugmyndum þeirra og verkum, börnin fái möguleika á að velja sér viðfangsefni eftir áhuga og kennararnir hlusti eftir áhuga barnanna. Börnin séu í aðalhlutverki í leikskólastarfinu.

Kennararnir skoði, skrái og ígrundi námsferli barnanna og ögri þeim með nýjum, framandi viðfangsefnum að kljást við. Kennararnir varpi fram mátulega ögrandi viðfangsefnum sem þeir byggja á reynslu sinni af börnunum. Áhersla sé lögð á velgengni og getu barnanna fremur en veikleika og getuleysi; þau hvött og þeim talin trú um getu sína til að leysa viðfangsefni og neikvæðri túlkun þeirra á eigin getu breytt í jákvæða túlkun. Samskipti kennara og barna skulu að verulegu leyti snúast um að takast sameiginlega á við verkefni, einblínt skal á verkið sjálft og hugmyndir um það eiga að mætast og byggjast á áhuga einstaklinganna. Í leikskólanum gefist börnunum tími og tækifæri til að fara sínar eigin leiðir í námi og hjálpast að í náminu. Lögð skal áhersla á að börnin sjái tilgang í þeim verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur, og verk barnanna fái að standa og þróast áfram eftir því sem áhugi þeirra og virkni býður − sum verk barnanna verða þannig kennsluefni morgundagsins.

Hugmyndafræðilegar stoðir

Sérhver skóli er samtímis einstakur og hluti af stærri heild, hann mótast af þeim einstaklingum sem að skólanum koma og menningu samfélagsins. Þar af leiðir er engin ein uppskrift til um gott skólastarf. Þær eru margar og fjölbreyttar og hér verður fjallað um helstu leiðir í skólastarfi Aðalþings. Hugmyndafræðilegar stoðir starfsins í Aðalþingi koma víða að. Sérstaklega er horft til heimspeki leikskólastarfsins í Reggio Emilia og hugmyndafræðilegs bakhjarls hennar, Loris Malaguzzis. En jafnframt er lögð áhersla á kenningar John Dewey um leikskólastarf og þátt skóla í að móta lýðræði og lýðræðisvitund. Til Lev Vygotsky eru sóttar kenningar um félagslegt nám barna og hlutverk leiksins. Einnig má finna samhljóm með hugmyndum Gunnillu Dahlberg og Peter Moss, um leikskólann sem vettvang lýðræðislegra breytinga. Carlina Rinaldi hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að í leikskólum sé hlustun í víðasta samhengi, viðfangsefni starfsins. Glenda MacNaughton hefur lagt sitt af mörkum til að skoða leikskólann sem vettvang kynjaðs starfs og mikilvægi þess að starfsfólk skoði tengsl valda og málnotkunar. Naima Browne hefur fjallað um starfsaðferðir um kynjað sjónarhorn í leikskólastarfi. Matthew Lipman hefur öðrum fremur lagt grundvöll að aðferðum til að ástunda heimspeki og Albert Bandura um mikilvægi þess að efla trú einstaklinga á eigin getu. Hér hafa fáir verið nefndir til sögunnar en rétt er að benda á að leikskólastarf og hugmyndafræði er ekki meitluð í stein.

Í Aðalþingi er markmiðið að leikskólastarfið þróist í samræmi við nýjar kenningar og rannsóknir. Lögð er áhersla á fljótandi námskrá en með því er annarsvegar átt við að hún er í stöðugu mati og endurskoðun, og hinsvegar að bæði er tekið tillit til áhuga barnanna og þeirra atriða sem ætlunin er að setja í forgang hverju sinni. Með því er átt við jafnólíka hluti og útikennslu, rannsóknarhópa barna, heimspeki og læsi, til dagála/kladda og þess að þróa fundarform. Lykilhugtök sem unnið er með á markvissan og skapandi hátt í leikskólanum eru nám leikskólabarna, ígrundun, lýðræði/valdefling, náttúra og upplýsingatækni.

Rannsóknarleikskóli

Leikskólanum Aðalþingi er ætlað að vera rannsóknarleikskóli í fararbroddi í leikskólastarfi:

  • Uppeldisfræðilegar skráningar eru grunnur að rannsóknarstarfi starfsfólks. Markmiðið er að á hverju þingi verði einn aðalnámsmaður sem leiðir skráningarvinnu. Rannsóknarhópar barna og starfsfólks verði efldir og að í leikskólanum verði uppeldisfræðilegar skráningar þróaðar og styrktar.
  • Í upphafi skólaárs verði fyrirlestrar um skráningarvinnu fyrir starfsfólk skólans.
  • Starfsfólk leikskólans sé virkt í þátttöku á ráðstefnum og málfundum um leikskólamál. Að starfsfólk sækist eftir að flytja erindi og fái stuðning til þess að vinna þau. Starfsfólk fái tækifæri til að flytja fyrirlestra og/eða námskeið innan sem utan Aðalþings.
  • Leikskólinn sendi inn veggspjöld á ráðstefnur þar sem það á við.
  • Unnið er að námsvef um valdeflingu barna/sjálfbærni/matarmenningu og matstofu Aðalþings.
  • Myndbandagerð um raungreinar, útinám og læsi.

Nýbreytni

Stefnt skal að því að á hverju ári sé sótt um styrki til nýbreytni og þróunarstarfa. Að jafnframt séu verkefnin unnin að einhverju leyti hvort sem til þeirra fæst styrkur eður ei. Gefinn sé tími til að móta og setja fram hugmynd að nýbreytni og þróunarverkefni þegar búið að vinna ákveðnar undirstöður. Þótt verkefni fái ekki styrk er ekki litið svo á að þeirri vinnu sé kastað á glæ heldur ber að vinna áfram að framgangi hugmyndarinnar í leikskólanum þótt það geti verið með öðru sniði. 

Á skólaárinu verður unnið að eftirfarandi þróunarstarfi í Aðalþingi:

  • Hafist verði handa á undirbúningi á þróunarverkefni um eiturefnalausan leikskóla.
  • Sett verði af stað þróunarverkefni um deildir yngri barnanna; unnið að fjölbreytni í námsumhverfi o.fl.
  • Áframhaldandi þróun á verkefninu um matstofur leikskólans sem fjallar um valdeflingu barnanna og margbreytileika. Það er að stuðla að aukinni valdeflingu barna með hönnun og skipulagningu matstofu þar sem barnið fær aukið val um hvað það borðar, hve mikið það vill borða, hvar það situr o.s.frv.
  • Að þróa dagála (kladda) leikskólans í rafrænt miðlægt form.
  • Áframhaldandi notkun og þróun morgunskýrslna leikskólans, sem eru skipulagsskýrslur um starfsmannahald dagsins.
  • Að þróa fræðslu og endurmenntunarleiðir leikskólans. Svo sem svokallaða „pedfundi“ skólans, þar sem fjallað er um skráningar og skólastarfið almennt.
  • Að þróa áfram hvernig við veitum upplýsingar og kynnum skólastarfið fyrir foreldrum og öðrum vinum á Facebooksíðu skólans.
  • Þróa áfram Helgarpósta; sem eru vikuleg rafræn rit með myndasafni frá hverri deild/þingi til foreldra, með upplýsingum um skólastarf liðinnar viku. IOS kerfi er ætlað að halda utan um tónlistarsafn, myndasafn og önnur gagnasöfn og upplýsingagrunna, auk þess sem áætlunin gerir ráð fyrir að kerfið verði nýtt til samskipta og upplýsingamiðlunar. Kerfið gegnir lykilhlutverki við uppeldisfræðilegar skráningar. iOS 5 er stýrikerfi fyrir tæki á borð við iPad, iPodTouch og iPhone. Aðalþing var brautryðjandi í notkun á spjaldtölvutækni í leikskólum, en spjaldtölvur og fleiri snjalltæki hafa verið á öllum deildum í nokkur ár.

Menningarlegur margbreytileiki

Í Aðalþingi fögnum við menningarlegum margbreytileika. Við teljum sjálfsögð mannréttindi að njóta viðurkenningar og að virðing sé borin fyrir bakgrunni hvers og eins. Í Aðalþingi er leitast við að skipulag húsnæðis sem og efniviður leikskólastarfsins endurspegli margbreytileika sem og myndir og skráningar sem hanga uppi í leikskólanum og annað efni sem frá leikskólanum fer. Það er óhugsandi að unnt sé að stuðla að mannréttindum án þess að jafnframt sé leitað eftir sjálfbærni og jafnvægi í þróun samfélagsins. Sjálfbærni er einnig háð því að hugað sé að jafnrétti þjóðfélagshópa. Lýðræði og mannréttindi og heilbrigði og velferð felast þannig í sjálfbærni en eru jafnframt sjálfstæðir grunnþættir menntunar.

Kynjafræðilegt sjónarhorn

Mikilvægi hins kynjafræðilega sjónarhorns í leikskólastarfi ætti flestum að vera ljóst. Jafnrétti í margar áttir er ein meginundirstaða skólastarfs. Í Aðalþingi er ætlast til að starfið sé skoðað með kynjafræðilegum gleraugum, að efni sem leikskólinn sendir frá sér sé yfirfarið með tilliti þess hvernig kynin birtast þar og skráningar og viðfangsefni þeirra greind frá kynjuðu sjónarhorni. Hið kynjaða sjónarhorn er hluti af menningu skólans og daglegum venjum. Sjálfbærni Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) er sjálfbærni einn af grunnþáttum leikskólastarfs. Sjálfbærni felur í sér fjölmarga þætti svo sem að vinna með gildi sem tengjast lýðræði og því að efla virðingu og tilfinningu fyrir náttúru og umhverfi. Hún tengist ótalmörgum menningarlegum, félagslegum og efna-hagslegum þáttum. Í Aðalþingi er horft til víðrar skilgreiningar á sjálfbærni og í samræmi við það unnið með hana þvert á allt starf leikskólans. Menntun til sjálfbærni í Aðalþingi miðar einnig að því að börnin taki þátt í að móta og hafa áhrif á leikskólasamfélagið. Hugmyndir um sjálfbærni í verki má meðal annars finna í innkaupastefnu leikskólans, vali á efniviði til sköpunar og leiks með börnum, umverfismenntunar, matarmenningu og endurvinnslu. Jafnframt má sjá greinileg merki sjálfbærni í hugmyndafræði skólastarfsins.

Sjálfbærni

Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) er sjálfbærni einn af grunnþáttum leikskólastarfs. Sjálfbærni felur í sér fjölmarga þætti svo sem að vinna með gildi sem tengjast lýðræði og því að efla virðingu og tilfinningu fyrir náttúru og umhverfi. Hún tengist ótalmörgum menningarlegum, félagslegum og efna-hagslegum þáttum. Í Aðalþingi er horft til víðrar skilgreiningar á sjálfbærni og í samræmi við það unnið með hana þvert á allt starf leikskólans. Menntun til sjálfbærni í Aðalþingi miðar einnig að því að börnin taki þátt í að móta og hafa áhrif á leikskólasamfélagið. Hugmyndir um sjálfbærni í verki má meðal annars finna í innkaupastefnu leikskólans, vali á efniviði til sköpunar og leiks með börnum, umverfismenntunar, matarmenningu og endurvinnslu. Jafnframt má sjá greinileg merki sjálfbærni í hugmyndafræði skólastarfsins.

Upplýsingatækni

Í Aðalnámskrá leikskóla (2011), er bent á að tölvur og stafræn samskiptatæki séu víða orðin ómissandi og sjálfsögð verkfæri í skólastarfi. Upplýsingatækni og notkun tölva styðja við sjálfbærni og gefa möguleika til að þróa starfið á fjölbreytta vegu. Aðalþing hefur frá upphafi lagt árherslu á að búa skólann vel af tölvum og öðrum stafrænum nýsigögnum. Má í raun segja að þessi áhersla sé ein undirstaða þess að skólinn geti náð fram markmiðum sínum og sýn. Í skólanum er þráðlaus nettenging sem kennarar við skólann settu upp og hefur nú um nokkurt skeið náð til allra rýma skólans. Greiður aðgangur að tölvum og starfrænum myndavélum fyrir utan viðeigandi hugbúnað er undirstaða uppeldisfræðilegra skráninga í starfinu.

Í Aðalþingi er stefnt að því að:

  • Vinna áfram að nýbreytni í tölvutækni í leikskólanum.
  • Vinna áfram í því að koma hluta af fræðslu- og kynningarefni skólans í myndbönd og upptökur sem meðal annars eru aðgengilegar foreldrum á netinu.
  • Haldið verði áfram með að veita starfsfólki tilsögn í notkun tækni til skráningavinnu. Nýta skráningar áfram með börnum og þeim gefinn kostur á að skoða og túlka þær og koma með athugasemdir.
  • Áframhaldandi þróun heimasíðu leikskólans og hún þróuð sem gagnvirkt samskiptatæki, t.d. kannanir meðal foreldra í gegnum heimasíðuna.
  • Halda áfram með þróun á síðu á vefsvæði Facebook sem ætlað er fjölskyldum barnanna og öðrum vinum Aðalþings. 
  • Enn öflugri notkun upplýsingatæknistarfs verði með öllum árgöngum leikskólans.
  • Áframhaldandi þróun á sjónvarpsmiðlun til foreldra í anddyri leikskólans.

Yfirlit yfir mat og eftirlit í Aðalþingi

Mat í leikskólanum þarf að uppfylla þau skilyrði, að vera kerfisbundið, altækt, opinbert, áreiðanlegt, greinandi og lýsandi og það verður að stuðla að samstarfi og umbótum. Mat verður líka að falla að þeirri starfsemi sem fyrir er og flokkast undir fasta þætti í starfi til að það festist í sessi og nýtist. Tilgangur mats er þríþættur; fylgjast með að ákvæðum laga, reglugerða og aðalnámskráa sé fylgt eftir, auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum og loks að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun. Mat á skólastarfi er tvíþætt, annars vegar innra mat sem skólar framkvæma sjálfir og hins vegar ytra mat sem utanaðkomandi aðili vinnur, t.d. sveitarfélög eða ráðuneyti.  

Eins og fram hefur komið starfar Aðalþing eftir þjónustusamningi við Kópavog. Samkvæmt samningnum er eitt meginmarkmiðið með rekstri leikskólans að „efla og auðga leikskólastarf í Kópavogi, með því að leita nýrra leiða til að auka nýbreytni og sveigjanleika í leikskóla­starfi“.  Allt frá opnum leikskólans hefur markvisst verið unnið að því að skólinn standi undir því markmiði, líkt og greina má víðar í þessari skólanámskrá.  

Í Aðalþingi eru gerðar uppeldisfræðilegar skráningar í formi ritaðs máls, ljósmynda og myndbanda og ennfremur eru fundargerðir af fundum grundvöllur umbótamiðaðs mats. Á hinum ýmsu fundum þinga/deilda eru tekin fyrir mismunandi atriði í starfinu og rætt um það sem vel er gert, um það sem óskað er eftir að þróa og það sem betur mætti fara. Í kjölfar funda má búast við breytingum. Uppeldisfræðilegar skráningar eru hafsjór upplýsinga sem hægt er að nota á mismunandi hátt, ein leið er að skoða þær með matsspurningar í huga. Matið er því símat sem er bæði umbótamiðað og samstarfsmiðað. Einnig eru framkvæmdar kannanir meðal foreldra í tölvutæku formi og á foreldrafundum, auk kannana á vegum bæjarfélagsins. Starfsfólk skólans hefur síðastliðin skólaár verið að þróa kerfisbundið innra mat, form sem notað verður í Aðalþingi næstu ár. Eftirfarandi fundir eru liður í matsferli skólans:

  • Pedfundir; þar ræða kennarar og starfsfólk saman og meta leikskólastarfið út frá skráningum.
  • Stjórnendafundir eru einu sinni í viku, – þar eru ákvarðanir teknar og endurskoðaðar af stjórnendum skólans, það er; þingforsetum, leikskólastjóra, viðbótarkennslustjóra, pedagogistu, yfirmatreiðslumanni o.s.frv.
  • Þingforsetafundir; einu sinni í viku, - þá funda þingforsetar með leikskólastjóra.
  • Þingfundir/deildarfundir aðra hverja viku.
  • Fundir leikskólastjóra, rekstraraðila og foreldraráðs Aðalþings.
  • Fundir leikskólastjóra og rekstraraðila.
  • Fundir viðbótarkennsluteymis. 
  • Starfsþróunarsamtöl.
  • (Sameiginlegir fundir allra kennara og starfsfólks Aðalþings, um það bil einu sinni í mánuði, hafa verið lagðir af vegna þess að skipulagsdagar eru núna miðstýrðir af sveitarfélaginu og svigrúm skólans því takmarkaðra).
  • Umhverfisteymi vinnur sérstaklega að umbótastarfi í átt að því að Aðalþing verði eiturefnalaus leikskóli.  

Stjórnunarteymi Aðalþings

 Stjórnunarteymi Aðalþings samanstendur af; leikskólastjóra, pedagogistu, matreiðslumanni, viðbótarkennslustjóra og þingforsetum leikskólans. Teymið situr alla stjórnendafundi sem haldnir eru vikulega. Stjórnunarteymi skal vinna að því að:

  • Halda utan um þróun skólastarfsins og vera leiðandi á sínu sviði.
  • Þróa leikskólastarfið í kringum nýja Aðalnámskrá leikskóla.
  • Leiða umræðu og mat á skólastarfinu.
  • Vinna í anda skipurits fyrir Aðalþing.
  • Starfa í anda starfslýsinga Félags Leikskólakennara svo og starfslýsinga Aðalþings.
  • Gera handbók fyrir nýliða í Aðalþingi.

Á hinum ýmsu fundum í skólanum er regluleg matsumræða um eftirfarandi þætti; jafnrétti, sjálfbærni, upplýsingatækni, mál og lestur, skapandi og hvetjandi námsumhverfi, starfshætti, matarmenningu, útiveru og hreyfingu, valdeflingu, lýðræði.    

Helgarpóstar sem fjallað hefur verið um hér að framan eru hluti af matsleiðum Aðalþings, innihald þeirra er reglulega rýnt og metið t.d. á skipulagsdögum.  

Reglulega er lagt mat á heimasíðu og facebooksíðu leikskólans.

Aðalþing býr að veglegu fagbókasafni sem er staðsett í miðju skólans, þar má finna fróðleik allt frá eldri bókum um heimspeki yfir í fræðirit um menntamál.  

Þátttaka barna í mati á skólastarfinu í Aðalþingi

 Í Aðalþingi er fljótandi námsskrá, sem felur í sér að námsskráin er í stöðugu mati og endurskoðun. Tillit er tekið til áhuga barnanna þegar ákveðið er hvað er sett í forgang hverju sinni. Grunnþáttur starfsins felst í áherslu á lýðræðislegt leikskólastarf, í slíku starfi felst virkni barna og að þau lifa í lýðræði, hluti af því er að meta alla þætti starfsins jafnt og þétt. 

Hér er lýst og tekin dæmi um það hvernig kennararnir í Aðalþingi hlusta eftir og aðstoða börnin við að vinna með hugmyndir sínar og hvernig sú vinna þróast með hækkandi aldri barna.

Fyrstu mánuði í leikskólagöngu tveggja ára barnanna eru þau að læra að leika og starfa í því frelsi sem einkennir leikskólastarfið í Aðalþingi. Börnin læra að vega og meta, velja og hafna svo og að átta sig á því að hugmyndir þeirra hafa gildi í leikskólasamfélaginu. Börnum gefst tækifæri til að meta hvaða námsgögn þau vilja nota; efniviður er aðgengilegur börnunum, svo sem blöð í mismunandi stærðum, litir, púsl, leikföng o.fl.. Börnin velja hvernig þau vilja nota efniviðinn og hvaða efnivið þau vilja nota saman. Börnin taka sín fyrstu skref í þátttöku á svokölluðum stöðvavinnufundum, þar ræða þau og meta viðfangsefni og velja sér. Í fyrstu eru stöðvar táknaðar með hlutum, t.d. geta kubbar verið tákn fyrir byggingastöð. Á matmálstímum eru börnin aðstoðuð við að velja sér sjálf mat af hlaðborði í Borðstofunni, síðan velja þau hvar þau vilja sitja hverju sinni og hve lengi þau eru að borða.  

Þegar börnin eru um það bil þriggja ára taka þau enn virkari þátt í stöðvavinnufundum en áður; kynnast notkun á tússtöflu þar sem hugmyndir þeirra um stöðvavinnu eru skráðar bæði í texta- og  myndformi. Hvert barn skrifar síðan sinn bókstaf við þá stöð sem það velur sér. Á matmálstímum velja börnin sér sjálf mat af hlaðborði í Matstofunni, velja sér sæti o.s.frv., líkt og þau gerðu tveggja ára. Þá eykst þátttaka barnanna í að meta eigið magamál, að vera svangur/svöng, saddur/södd, að meta hve mikið þau velja að setja á matardiska o.s.frv.

Fjögurra ára eru börnin orðin vön að skipuleggja stöðvavinnufundi, þau eru einnig farin að stýra fundunum af og til og velja svo samkvæmt eigin mati. Daglega er skólastarfið í þeim anda að augnablik eru gjarnan gripin, þegar börnin fá hugmyndir. Hlustað er sérstaklega á hugmyndir þeirra og þau aðstoðuð við að grípa tækifærið – augnablikið og hvernig þau geti haldið áfram að vinna með hugmyndir. Börnin læra þannig af hverju öðru og meta eigið nám og starf svo og hinna barnanna með virðingu og opnum hug. 

Dæmi um að grípa hugmynd barna.

Þingið/deildin er vinnusvæði þeirra sem þar eru og á það ekki síst við um börnin sjálf, þau hafa nánast allt um það að segja hvernig þingið/deildin þeirra lítur út og hvað er í boði í stöðvavinnu, leitað er eftir hugmyndum barnanna. Börnin huga einnig að þinginu/deildinni t.d. með því að ganga frá jafnóðum og að þrífa hana einu sinni í viku. Í Matstofu velja þau sér sæti o.fl. Þegar hér er komið eiga börnin að vera orðin nokkuð góð í að meta eigið magamál þannig að þegar þau eru búin að borða og koma til baka inn á sitt þing/deild þá færir hvert barn mynd af sér á þar tilgerða matstöflu, sem sýnir hvort barnið hafi að eigin mati borðað; lítið, miðlungs eða mikið. Enn þarf nokkrar umræður um að setja ekki of mikið á matardiskinn, fá sér frekar meira af hlaðborðinu í annarri ferð.  

Þegar börnin eru fimm ára og komin á sitt síðasta leikskólaár eru þau orðin vön enn sjálfstæðari vinnubrögðum svo og í að leggja mat á eigin hugmyndir og sameiginlegar hugmyndir hópsins. Börnin bæði stýra og skipuleggja stöðvavinnufundi ásamt kennurum.  Þá metur hvert barn að hausti hvað það vill leggja sérstaka áherslu á síðasta skólaárið sitt. Líkt og áður var fjallað um þá er þingið/deildin vinnusvæði sem börnin huga að líkt og þau gerðu þegar þau voru fjögurra ára og þegar þau leggja mat á hve mikið þau hafi borðað, skrá þau það á spjald merkt nafni viðkomandi barns, fyrst er nafnið haft í prentuðu formi en þegar líður að vori breyta börnin þeim yfir í að skrifa sjálf nafnið sitt í stað þess prentaða. Oft þarf nokkrar umræður um að setja ekki of mikið á matardiskinn og forðast matarsóun.  

Um matarmenninguna í Aðalþingi er sérstakur námsvefur á heimasíðu leikskólans. 

Viðbótarkennsluteymi 

Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla (2011) er jafnrétti einn af grunnþáttum leikskólastarfs. Öll börn eiga rétt til menntunar og náms við hæfi. Með námi við hæfi er átt við að leikskólinn leggur sig fram um að veita öllum börnum sem mesta og besta hlutdeild í því starfi sem þar fer fram, bæði á forsendum barnsins og leikskólans. Það sem venjulega gengur undir nafninu sérkennsla fær heitið viðbótarkennsla. Viðbótarkennsluteymi Aðalþings fundar hálfsmánaðarlega til að meta og skipuleggja starfið. Teymið er jafnframt forvarnarteymi og markmiðið er að tryggja að ekkert barn sé lengi með óljósa stöðu eða á gráu svæði eins og stundum er sagt. Unnið er eftir ákveðnu vinnuferli þegar grunur er um að barn fái ekki notið leikskóladvalar sinnar til hlítar s.s vegna þroskaraskana, tilfinninga- og eða félagslegra erfiðleika. Reglulega eru haldnir svokallaðir teymisfundir, þar sem foreldrar, þingforseti viðkomandi barns og viðbótarkennslustjóri o.fl. fara yfir hvernig hefur gengið, farið er yfir einstaklingsnámskrá barnsins og hvað beri að leggja áherslu á næstu átta vikurnar.Hlutverk viðbótarkennsluteymis er einnig að vinna að því að komið verði til móts við sérhvert barn eftir aðstæðum þess; t.d. annað móðurmál en íslenska og barn sem dvalið hefur langdvölum erlendis. Matsverkfæri sem nýtt eru hjá teyminu eru meðal annars; Hljóm-2 að hausti fyrir elstu börn leikskólans. EFI-2 fyrir börn á fjórða ári. Málþroskaskimunin Orðaskil þegar þess þarf.

Skipulag og vinnuferli Viðbótarteymisins er endurskoðað reglulega og það skilar árlega skýrslu til Menntasviðs Kópavogs. 

Aðkoma foreldra að mati

Í Aðalþingi hefst foreldrasamstarfið með fyrsta bréfi sem staðfestir að barnið muni hefja leikskólagöngu í leikskólanum. Í bréfinu er greint frá einu meginmarkmiði skólans sem er að í Aðalþingi fái barnið þá bestu umönnun og kennslu sem völ er á. Foreldrum er reglulega bent á að láta stjórnendur vita ef þeir telja að fyrrgreint markmið sé ekki uppfyllt. Áður en barn hefur leikskólagöngu sína eru foreldrar boðaðir í fyrsta foreldrasamtalið, en reglubundin formleg samtöl eru tvisvar á skólaári, eitt að hausti og annað að vori, einnig geta foreldrar hvenær sem er óskað eftir sérstöku samtali við kennara og/eða stjórnendur skólans. Markmið foreldrasamtala er að foreldrar og kennarar ræði um skólastarfið; nám og líðan barnsins. Kennarar í Aðalþingi hafa þróað eyðublöð sem notuð eru í foreldrasamtölum. Viðbótarkennslustjóri er með í foreldrasamtölum þegar þess er óskað eða talin þörf á. Áður en barnið hefur leikskólagöngu sína eru foreldrar þess boðaðir á kynningarfund þar sem skólastarfið í Aðalþingi er kynnt og þeim bent á leiðir til að gagnrýna skólastarfið. Aðferðin sem notuð er við upphaf skólagöngu hvers barns í Aðalþingi nefnist þátttökuaðlögun, foreldrar eru með börnum sínum í leikskólanum í þrjá daga og taka virkan þátt í leikskólastarfinu. Í Aðalþingi er starfandi foreldrafélag svo og foreldraráð, sem hefur sett sér starfsreglur. Meiriháttar breytingar á skólastarfi Aðalþings eru lagðar fyrir foreldraráðið. Kannanir hafa verið gerðar meðal foreldra, þær hafa ýmist verið framkvæmdar af stjórnendum skólans eða fyrirtækinu Skólapúls og unnið hefur verið að endurbótum miðað við niðurstöður  kannananna. Foreldrar fá vikulega gögn um líðandi skólastarf, foreldrar og börn rýna gögnin sameiginlega, þannig gefst barni tækifæri á að rifja upp og meta hvað það hefur lært. Í Aðalþingi hefur verið unnin handbók fyrir starfsfólk um foreldrasamstarf.  

Aðalþing - Vatnsendaskóli

Kópavogur hefur tekið þá ákvörðun að hver leikskóli eigi aðeins samstarf við einn grunnskóla, það er grunnskóla í viðkomandi skólahverfi. Öll börn sem eru í viðkomandi leikskóla taka þátt í samstarfi við hverfisskóla hvort sem barnið mun hefja þar grunnskólagöngu sína eða ekki. Aðalþing er í samstarfi við Vatnsendaskóla, kennarar yngsta stigsins þar og kennarar elsta stigs leikskólanna eiga með sér samstarf. Vatnsendaskóli er með verkefnavinnu sem heitir Skólavinir. Verkefninu er þannig háttað að leikskólabörn á síðasta ári í leikskóla eignast skólavin í fjórða bekk. Meginmarkmið verkefnis er að nemandi sem hefur grunnskólagöngu í 1. bekk eigi stuðningsaðila í skólanum, vin í 5. bekk sem hann getur leitað til. Að vori funda kennarar skólastiganna tveggja, leggja mat á líðandi samstarf og greina frá stöðu barnanna.

Kópavogur hefur tekið þá ákvörðun að hver leikskóli eigi aðeins samstarf við einn grunnskóla, það er grunnskóla í viðkomandi skólahverfi. Öll börn sem eru í viðkomandi leikskóla taka þátt í samstarfi við hverfisskóla hvort sem barnið mun hefja þar grunnskólagöngu sína eða ekki. Aðalþing er í samstarfi við Vatnsendaskóla, kennarar yngsta stigsins þar og kennarar elsta stigs leikskólanna eiga með sér samstarf. Vatnsendaskóli er með verkefnavinnu sem heitir Skólavinir. Verkefninu er þannig háttað að leikskólabörn á síðasta ári í leikskóla eignast skólavin í fjórða bekk. Meginmarkmið verkefnis er að nemandi sem hefur grunnskólagöngu í 1. bekk eigi stuðningsaðila í skólanum, vin í 5. bekk sem hann getur leitað til. Að vori funda kennarar skólastiganna tveggja, leggja mat á líðandi samstarf og greina frá stöðu barnanna.

Stefnur og eftirlit

 

Námskrá/starfsáætlun Aðalþings skiptist í eftirfarandi kafla: 

  • Gildi starfsins í Aðalþingi fyrir börn.
  • Gildi starfsins í Aðalþingi fyrir starfsfólk.
  • Gildi starfsins í Aðalþingi fyrir foreldra.
  • Gildi starfsins á Aðalþingi fyrir samfélagið.

 Áætlanir

 

Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook