Skólinn

Leikskólinn Aðalþing er við Aðalþing 2 í Kópavogi. Húsnæðið er í eigu Kópavogsbæjar en skólinn er rekinn af Kennarafélaginu ehf. samkvæmt rekstrarsamningi við sveitarfélgið, frá 1. júlí 2022. Eigendur Kennarafélagsins eru þriðjungur starfsmanna við skólann. Frá 2009 til 2022 vars Aðalþing rekið af Sigöldu ehf.  í eigu Sigurðar Þórs Salvarsson og Dr. Guðrún Öldu Harðardóttur. Skólastjóri er Hörður Svavarsson.

Leikskólinn Aðalþing er rekinn í anda hugmyndafræði Loris Malaguzzi ,  oftast kennd við bæinn Reggio Emilia á Ítalíu. Aðalþing hóf starfsemi þann 4. mars 2009, þar eru 120 börn á aldrinum 1- 6 ára. Áhersla er lögð á að leikinn sem undirstöðu náms hjá börnunum, skapandi starf og umhverfi leikskólans á að styðja við náttúrulega rannsóknar- og sköpunarþörf barna. Hlutverk starfsfólks er að vera samverkamenn barnanna.

Leikskólinn Aðalþing starfar líkt og aðrir leikskólar Kópavogs samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla og námskrá leikskóla Kópavogs. Skólastarfið tekur mið af ítalskri aðferðafræði sem kennd er við borgina Reggio Emilia á Norður-Ítalíu, en hún byggist meðal annars á lykilorðunum: Ígrundun – lýðræði – náttúra – upplýsingatækni.

Þetta eru hugtök sem unnið verður með á markvissan og skapandi hátt í Aðalþingi. Þar verður litið á börn sem hæfileikaríka einstaklinga og horft verður á þekkingu og nám í heild – heildarsýn á nám, það er að allt tengist og vinnur hvert með öðru.

Önnur einkunnarorð skólans eru: Gleði – vellíðan – undrun – ævintýraljómi, en andi þessara orða mun svífa yfir vötnunum í leikskólanum, námsumhverfið verður hannað á þann hátt að það veki upp löngun meðal barnanna að leika sér og rannsaka.

Leiðarstef Aðalþings

Stefnt er að því að leikskólinn Aðalþing verði rannsóknaleikskóli í fararbroddi í leikskólastarfi. Ýmis nýbreytni er í leikskólastarfinu, en þar er helst að nefna:

  • Unnið er markvisst með fljótandi námskrá (emergent curriculum).
  • Öflugt upplýsingatæknistarf er með öllum árgöngum leikskólans.
  • Mikið er um efnivið til að leika sér með en lítið um hefðbundin leikföng.
  • Ígrundun – lýðræði/valdefling – náttúra – upplýsingatækni, eru hugtök sem unnið er með á markvissan og skapandi hátt í leikskólanum.
  • Leikskólinn skiptist í yngri og eldri einingar. Í hvorri einingu verða tveir og þrír árgangar, heimasvæði/deildir hvers árgangs  er hannað þannig að námsumhverfi henti hverjum árgangi sem best. Flæði er á milli árganga svo og á milli eininga.
  • Boðið er upp á hollt mataræði og unnið í anda hugmyndafræði um sjálfbærni.
  • Kynjafræðilegt sjónarhorn er viðhaft í leikskólastarfinu, þó er ekki farin sú leið að deildir/heimasvæði séu höfð kynjaskipt.
  • Auk hefðbundinna barnabóka eru notaðar heimspekisögur fyrir börn eftir Matthew Lipman, Guðrúnu Öldu Harðardóttur o.fl.

 

Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook