Almennt betra heilsufar í haust

Í haust hefur verið lögð mikil áhersla á að börn með einhver einkenni um veikindi komi ekki í leikskólann. Í kjölfarið sjáum við að bæði börn og starfsfólk er minna frá vegna veikinda af völdum algengra umgangspesta.

Það er ævintýri líkast að við höfum ekkert þurft að skerða þjónustu meðan á þessum samkomutakmörkunum hefur staðið. Hvorki hefur þurft að loka deild eða láta sækja börnin fyrr. Minna hefur borið á algengum umgangspestum væntanlega vegna þess að sóttvarnir eru miklar og börnum með einhver veikindaeinkenni er haldið heima.

Við höfum borið saman fjarvistir barna milli ára og það skiptir tugum prósenta hvað hlutfall fjarvista hjá börnunum var meira í fyrra en á þessu ári. Í september var hlutfall fjarvista 59% hærra en núna í september. Í nóvember var hlutfall fjarvista sléttum 30% hærra í fyrra heldur en núna í nýliðnum mánuði. Það að börn með einhver veikindaeinkenni eru höfð heima skilar sér greinilega í almennt betra heilsufari. Auðvitað kunna aðrar breytur að hafa þarna áhrif líka, auknar sóttvarnir og minni samgangur milli fólks utan skólans en við teljum það augljóst að í þessu ástandi er leikskólinn ekki sami vettvangur smita fyrir þessar pestir eins og oft áður.

Munur á milli október í fyrra og á þessu ári er ekki eins mikill, en í október núna voru mörg börn dögum saman í sóttkví. Engu að síður voru fjarvistir barna minni í ár heldur en í fyrra.

Við höldum því áfram að minna á að;
Eins og alltaf er mikilvægt að hafa í huga að leikskólinn er ekki fyrir veik börn.
Börn sem ekki geta verið í útiveru geta ekki komið í skólann þann daginn.
Börn með einkenni um veikindi, svo sem kvef, skulu vera heima þar til þau eru einkennalaus.
Leikskólabörn skulu að jafnaði vera hress og hitalaus í að minnsta kosti sólarhring, áður en þau koma aftur í leikskólann.


Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook